Umferðarmál

Hversu gamall þarf maður að vera til að aka vespu?

Ökuréttindi þarf til að aka léttu bifhjóli sem nær allt að 50 km. hraða. Þau má fá að undangengnu ökunámi og prófi við 15 ára aldur.

Rafmagnsreiðhjólum er nú skipt í tvo flokka:

  1. Létt bifhjól sem ná ekki yfir 25 km/klst á hraða. Ekki yfir 4Kw og má vera hvort sem heldur raf/bensíndrifið. Um þessi tæki gildir:
    1. 13 ára aldurstakmark
    2. Ekki gerð krafa um réttindi
    3. Skráningarskyld
    4. Má aka bæði á götum og gangstéttum/hjólastígum
  2. Reiðhjól með hjálparmótor en þó með stig/sveifarbúnaði. Þessi hjól mega ekki vera meira en 0,25kw. að afli þar sem afköst minnka og stöðvast alveg við 25 km/klst.

Skv.umferðarlögum flokkast tæki II sem reiðhjól, sé þess gætt að þau fylgi skilyrðum, td.hvað varðar hraða. Tæki sem flokkast í flokk I eru hinsvegar skilgreind sem létt bifhjól og þarf ökumaður þeirra að hafa náð 13 ára aldri og tækið að vera skráð. Ekki er gerð krafa um réttindi ökumanns eða tryggingar.

Þokuljós – hvaða reglur gilda?

Varðandi þokuljós á ökutækjum má segja að það er ekkert rangt við að nota slík ljós, krefjist aðstæður þess sbr. lögin:

„Í þoku, þéttri úrkomu eða skafrenningi má nota þokuljós í stað eða ásamt lágum ljósgeisla. Hjálparljós má eigi nota til annars en þau eru ætluð.“

Hins vegar ber að nefna að aftur-þokuljós eru eingöngu ætluð til notkunar utanbæjar, í skertu skyggni og má aldrei nota innanbæjar. Þá er gott að árétta að í utanbæjarakstri miðast notkun við þoku, þétta úrkomu eða skafrenning. Borið hefur á því að fólk aki með þokuljós í myrkri. Það er óheimilt og við því er sekt. Aðalmálið er þó að óhófleg notkun þokuljósa getur truflað nætursjón ökumanna sem koma úr gagnstæðri átt, ekki ósvipað og háu ljósin. Til að flækja málin þá eru margar nýrri gerðar bifreiða útbúnar „hliðarbeygjuljósum“, sem tengd eru þannig að á þeim kviknar þegar stefnuljós eru sett á. Slíkur ljósabúnaður er leyfilegur, skv. reglugerð. Athuga ber að þessum ljósum er ætlað að lýsa upp vegöxl, en ekki fram á veginn.

Má senda SMS við akstur?

Hvað varðar SMS þá er það sérstaklega nefnt í umferðarlögum og því nokkuð ljóst hvað má og hvað má ekki. Í lögunum segir:

“Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.”

Það á við um alla notkun slíkra síma, ekki aðeins að tala í þá í akstri.

Hvernig virkar hægri forgangur?

Hægri forgangur er grunnregla í umferðarlögum. Í 25.gr. umferðarlaganna segir:
“Þegar ökumenn stefna svo, að leiðir þeirra skerast á vegamótum, opnum svæðum eða svipuðum stöðum, skal sá þeirra, sem hefur hinn sér á hægri hönd, veita honum forgang.”

Þannig gildir reglan um “rétt til hægri” nema þar sem umferðarmerki eða umferðarstjórn lögreglu gilda. Þau gilda ofar þessari grunnreglu.

Hvenær er hægt að fjarlægja skráningarnúmer af bifreiðum vegna skoðunar?

Kerfið er þannig uppbyggt að bifreið sem ekki er færð til skoðunar innan þriggja mánaða frá því að aðalskoðun á að fara fram, fær sjálfkrafa sekt, sem greiða þarf þegar bifreiðin er færð til skoðunar næst. Ef ekki er farið eftir því og bifreiðin samt ekki færð til skoðunar getur lögregla klippt skráningarnúmer af ökutæki eftir að fullir 8 mánuðir hafa liðið frá því að færa átti ökutækið til skoðunar eða fullir 6 mánuðir hafa liðið frá því að bifreiðin átti að færast til endurskoðunar.

Lögreglan hefur þá vinnureglu að senda ekki sérstaklega lögreglumenn á vettvang þar sem tilkynnt er um óskoðaða bíla einfaldlega vegna þess að það eru næg verkefni og þetta verkefni er hentugra að vinna skipulega en ekki taka einn bíl í einu. Þannig er farið yfir götur og hverfi kerfisbundið og sektum dreift á óskoðaða bíla. Ef lögregla hefur afskipti af ökutækjum er oftast hugað að því hvort bifreiðin hafi verið færð til skoðunar.

Má fara út í myrkri án þess að vera með endurskinsmerki?

Það er ekki ráðlegt! Hins vegar eru engar reglur til varðandi gangandi vegfarendur og notkun endurskinsmerkja. Á hinn bóginn eru til reglur um endurskinsmerki og hjólreiðar. Hér ætti heilbrigð skynsemi að ráða en því miður eru allt of margir sem átta sig ekki á því að þeir geta verið ósýnilegir með öllu í náttmyrkrinu.

Hvenær mega börn/unglingar sitja frammí?

Það er á ábyrgð ökumanns ökutækis að allir farþegar séu í öryggisbelti og að börn noti viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan öryggisbúnað. Börn lægri en 150 cm skulu nota sérstakan verndarbúnað.

Aðgæta ber líka að í flestum bifreiðum í dag eru loftpúðar sem springa út við árekstur til að hlífa ökumanni og farþegum, en slíkur búnaður í framsæti getur verið hættulegur börnum. Best er að skoða leiðbeiningar með bifreiðinni og fara eftir þeim.

Er svigakstur bannaður?

Já. Svigakstur er brot á reglu um að ökutæki eigi að halda sig á þeirri akrein sem henni er ætluð og getur eftir atvikum verið brot á almennu varúðarreglunni en hvort tveggja er sektanlegt. Lögreglan fylgist með slíkum brotum og hefur sektað ökumenn vegna þessa.

Svigakstur skapar hættu, óþægindi og óöryggi án þess að vera neinum í hag. Ökumönnum ber að sýna aðgát og gera ekkert sem gæti valdið hættu.

Hvaða reglur gilda um hringtorg?

Alltaf að beygja inn á hringtorg til hægri.

Umferð í hringtorgi hefur forgang á umferð sem fer inn í hringtorg.

Umferð á innri hring hefur forgang gangvart umferð á ytri hring.

Sé ekið á ytri hring framhjá útkeyrslu er stefnumerki gefið til vinstri og fylgst vel með umferð á innri hring.

Eigi að fara út af hringtorgi á fyrstu útkeyrslu þá að nota ytri hring.

Gefa stefnuljós til hægri áður en ekið er út af hringtorgi.

Það má þá ekki skipta um akrein á hringtorgi.

Hvað þurfa börn að vera stór þegar þau geta hætt að nota beltispúða eða upphækkun?

Í umferðarlögum segir í 71. grein:

„Ökumaður skal sjá um að í stað öryggisbeltis eða ásamt öryggisbelti noti barn viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- og verndarbúnað ætlaðan börnum lægri en 150 cm á hæð.  Ef slíkur búnaður er ekki í bifreið skal nota öryggisbelti fyrir barnið.“

Þannig er í raun miðað við 150 cm þegar kemur að þessum sérstaka öryggisbúnaði fyrir börn.

Að sama skapi mega börn sem styttri eru en 150 cm á hæð ekki sitja í framsæti bifreiða þar sem uppblásinn öryggispúði er staðsettur fyrir framan barnið.

Ég bý í rólegri íbúagötu – mælið þið aldrei hraða í slíkum götum?

Jú, sannarlega reynum við að fylgjast með íbúagötum enda eru það einmitt göturnar sem við leggjum mikla áherslu á. Það sem þarf samt að muna er að tilfinning okkar fyrir hraða ökutækja er miðuð við umhverfið. Þannig finnst okkur oft að ökutæki sem er ekið í þröngri, gróinni götu þar sem kyrrð ríkir, sé í raun ekið töluvert hraðar er raun ber vitni.

Þannig fáum við stundum óskir um hraðamælingar úr slíkum götum, síðan þegar við mælum þá er jafnvel ekki einni bifreið ekið of hratt, en þá hefur tilfinning okkar fyrir hraða breyst, sökum þess hvernig gatan er. Um þetta eru mörg dæmi.

Er bannað að nota þokuljós?

Það er ekki bannað ef aðstæður krefjast þess.

„Í þoku, þéttri úrkomu eða skafrenningi má nota þokuljós í stað eða ásamt lágum ljósgeisla. Hjálparljós má eigi nota til annars en þau eru ætluð.“

Hins vegar ber að nefna að afturþokuljós eru eingöngu ætluð til notkunar utanbæjar, í skertu skyggni og má aldrei nota innanbæjar.

Svo, til að flækja málin enn frekar, þá eru einnig komnir á markað bílar sem eru útbúnir „hliðarbeygjuljósum“ sem eru tengd þannig að á þeim kviknar þegar stefnuljós eru sett á. Slíkur ljósabúnaður er leyfilegur skv. reglugerð. Athuga ber að þessi ljós lýsa upp vegöxl, en ekki fram á veginn.

Ef ég sendi ykkur mynd af bíl sem er lagt ólöglega, getið þið sektað hann?

Við kærum almennt ekki í umferðarmálum byggt á ljósmyndum enda myndi slíkt valda okkur töluverðri vinnu, efalítið meira en efni stæðu til og fyrir því eru margar ástæður. Meðal annars þyrfti þá að finna ökumann, sem myndi á stundum alls ekki láta finna sig, taka viðkomandi fyrir og  margt annað sem myndi gera slíka framkvæmd mjög erfiða. Þetta er góð hugmynd, en framkvæmd hennar er mjög erfið og því höfum við ekki farið þessa leið.

Ef þú telur að lögreglan ætti að skoða málið frekar geturðu sent okkur formlegt erindi.

Má vera með dökkar framrúður í bíl?

Allan þennan fróðleik og mun meiri er að finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, en hana er að finna hér að neðan. Reglugerð sú inniheldur allar upplýsingar sem snúa að tæknimálum ökutækja.

Ekki er löglegt að vera með filmur í framhliðarrúðum ökutækja en sannarlega getur það verið löglegt að vera með litað gler, en margir bílar koma með slíkum útbúnaði. Í reglugerðinni segir:

09.01 Rúður.

  1. Rúður skulu vera úr lagskiptu öryggisgleri, hertu öryggisgleri eða plastefni sem myndar ekki hvassar brúnir við brot.
  2. Framrúða eða vindhlíf skal vera þannig gerð að hún hvorki brengli né óskýri mynd þeirra hluta sem sjást í gegnum hana.
  3. Ljósgegnumstreymi framrúðu og fremstu hliðarrúða skal innan eðlilegs sjónsviðs vera a.m.k. 70%.

Einnig var spurt hvort að skipta mætti út framhliðarrúðum fyrir svartar rúður eða speglagler. Svarið við því er nei, það má ekki setja svartar rúður eða speglagler en það mætti skipta út hliðarrúðum fyrir rúður sem uppfylla skilyrðin hérna að ofan.

Reglugerðina er að finna hérna.

Get ég tilkynnt hraðakstur í tiltekinni götu?

Slíka tilkynningu er best að senda okkur með tölvupósti þar sem tilefni og gata eru tilgreind. Þessi tilkynning fer síðan á lögreglu sem starfar á svæðinu sem skipuleggur síðan viðbrögð. Ef vandamálið er viðvarandi þá væri næsta skref að tala við borg eða sveitarfélag.

Ökuferilskrá – hvar nálgast á hana?

Ökuferilskrá er hægt að fá á öllum lögreglustöðvum gegn því að framvísa persónuskilríkjum, en þá er hún sem dæmi prentuð út fyrir viðkomandi. Í sérstökum tilfellum, eins og t.d. þegar viðkomandi er ekki staddur á landinu, er hægt að senda tölvupóst á okkur í netfangið sektir(at)lrh.is, ásamt öllum persónuupplýsingum og útskýringu á hvers vegna ekki er hægt að koma á lögreglustöð. Þá er reynt að verða við því og senda hana rafrænt út.

Má ég vera með heyrnartól í eyrunum við akstur?

Það er ekkert í umferðarlögum sem bannar slíkt annað en almenna varúðarreglan en í henni segir:

„Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Hann skal og sýna þeim, sem búa eða staddir eru við veg, tillitssemi.“

Þannig mætti halda fram að með því að loka fyrir hlustirnar með heyrnartólum sé ekki verið að sýna varúð.

Má ég flytja rúm á þaki bílsins míns?

Það fer væntanlega eftir stærð rúmsins, stærð bílsins og hvernig farmurinn er frágenginn. Frekari upplýsingar má finna í stórskemmtilegri reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms.

Hversu stórum vörubílum má leggja í íbúðahverfi og hve langt frá brunahana þurfa þeir að vera?

Í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík segir:

Vörubifreiðum sem eru 4 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutningabifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja í götum eða almennum bifreiðastæðum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar án tillits til þunga þeirra. Borgarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði þar sem undanþága hefur verið veitt.“

Því er um að gera að tilkynna slíkt til okkar í 112, en þá reynum við að skoða málið, sé þess nokkur kostur.

Varðandi brunahana er óleyfilegt, skv. umferðarlögum að leggja við slíka hana, nánar tiltekið e-lið, 3. mgr. 29. gr.

Umferðarlögin má finna hérna.

Yfirlitssíða fyrir allar lögreglusamþykktir má finna hérna.

Má aka vespum á gangstígum?

Þetta er góð spurning en svarið við henni er ekki einfalt.

Skilgreiningum á léttu bifhjóli og reiðhjóli er breytt þannig að nú er léttum bifhjólum skipt í tvo flokka, I og II. Í flokki léttra bifhjóla I eru bifhjól sem ná ekki meiri hraða en 25 km á klst hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin og er þá miðað við hámarkshraða sem tilgreindur er af framleiðanda bifhjólsins. Í umferðarlögin hefur verið bætt við, í skilgreiningu á léttu bifhjóli, að sé það rafdrifið skuli það ekki vera yfir 4 kW að afli. Sé hjólið með stig- eða sveifarbúnað sem þarf að stíga og er búið rafdrifnum hjálparmótor fellur það ekki undir skilgreiningu léttra bifhjóla í flokki I heldur telst vera reiðhjól og, hér að neðan, sjá má nánari umfjöllun um þær reglur sem nú gilda um slík hjól.

 

13 ára lágmarksaldur á léttu bifhjóli í flokki I Eins og áður segir voru þessi hjól sem nú eru skilgreind sem létt bifhjól í flokki 1 skilgreind sem reiðhjól og því voru engin aldursmörk fyrir stjórnendur slíkra hjóla. Nú er hinsvegar búið að setja skilyrði um lágmarksaldur og miðast hann við 13 ár. Líkt og gildir um reiðhjól er ekki gerð krafa um ökunám og ökuréttindi né heldur sérstakt próf varðandi akstur léttra bifhjóla í flokki I. Hjól í þessum flokki eru hinsvegar undanþegin vátryggingarskyldu en rétt er að hvetja eigendur til að huga vel að tryggingarmálum og leita ráða hjá tryggingarfélögum varðandi ábyrgðatryggingar.

 

Öfugt við önnur reiðhjól var sérstakt ákvæði sem bannaði að þessum hjólum væri ekið á akbraut og mátti eingöngu aka þeim á gangstígum. Sú nýjung er tekin upp að heimila akstur á léttum bifhjólum í flokki I á akbrautum óháð hámarkshraða á vegi og heimilt er eftir sem áður að vera á gangstétt, hjólastígum og gangstígum. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á hjólastígnum. Ef léttu bifhjóli í flokki I er ekið af gangstétt út á akbraut og hún þveruð skal aka á gönguhraða. Lítil rafdrifin hjól s.s. Segway-hjólin, rafdrifin hlaupahjól og hjólastóll sem er ekki hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst eru áfram skilgreind sem reiðhjól og mega eftir sem áður ekki vera á akbraut.

Gilda aðrar reglur um strætó þegar kemur að því að aka frá biðstöðvum?

Já, það gilda sérreglur um strætó og hópferðabifreiðar hvað þetta varðar. Samkvæmt 21. grein IV. kafla umferðarlaga segir:

„Ökumaður sem í þéttbýli nálgast biðstöð þar sem hópbifreið í almenningsakstri hefur numið staðar skal draga úr hraða, færa sig yfir á vinstri akrein eða nema staðar ef nauðsyn ber til ef ökumaður hópbifreiðarinnar í almenningsakstri hefur gefið merki um að hann ætli að aka af stað. Ökumaður hópbifreiðarinnar í almenningsakstri skal eftir sem áður sýna sérstaka aðgát til að draga úr hættu.“

Þannig hafa strætisvagnar ákveðinn forgang hvað þetta varðar. Það segir þó alls ekki að þeir geti hreinlega ekið af stað án þess að gæta sérstaklega að sér og leggja þannig aðra í hættu.

Ég tilkynnti um ölvaðan ökumann til 112. Mig langar bara að forvitnast í hvaða farveg svona tilkynningar fara. Hvað gerist eftir tilkynninguna?

Eftir að tilkynningin hefur verið hringd inn þá er það tilkynnt yfir talstöðvarrásina um að umrætt ökutæki sé í umferð og að ökumaður sé grunaður um að vera undir áhrifum áfengis, ásamt öðrum upplýsingum sem liggja fyrir eins og hverfi og akstursstefna. Útvinnandi lögreglumenn reyna að finna viðkomandi, stöðva akstur og kanna ástand. Ef ökumaður mælist yfir mörkum þá er hann handtekinn.

Það er mikilvægt fyrir okkur að fólk láti fylgja með allar upplýsingar sem geta skipt máli, bílnúmer, bíltegund, sérkenni bifreiðar. Ekki síst er gott að vita hvar viðkomandi er, hvert viðkomandi er að fara og hvort að tilkynnandi sé e.t.v. á eftir bílnum. Allt skiptir þetta máli til að reyna að finna þann bíl sem leitað er að.

Er leyfilegt að taka U-beygju á gatnamótum?

Það fer eftir því hvort og hvaða umferðarmerki er á gatnamótunum. Ef boðmerki með aksturstefnu, blátt merki með hvítri ör, er á gatnamótum merkir það að aðeins má aka þar sem það vísar.

Boðmerki

 

Eru þessi merki notuð í dag fram yfir bannmerki eða „u-beygja bönnuð.“ Tilgangurinn er að greiða fyrir umferð, enda getur það valdið töfum á umferð ef verið er að taka u-beygju.

 

Við hringtorg eru oft hraðahindranir sem fólk notar sem gangbraut. Eru það raunverulegar gangbrautir?

Þannig að ef ekki er uppi gangbrautarmerki þá er ekki um gangbraut að ræða og í þessu tilfelli er um að ræða hraðahindrun eða gönguleið/hjólaleið án gangbrautarréttar samkvæmt umferðarlögum. Þó má aldrei gleyma að meginregla umferðarlaga 4. gr. Um tillitsemi við gangandi sem og aðra vegfarendur á alltaf við. Þarna eru gangandi sem og hjólandi að þvera veg á hraðahindrun og göngu-hjólaþverun án gangbrautarréttar.

Til þess að um gangbraut sé að ræða þarf að vera þar tilgert skilti sem skal vera báðum megin akbrautar. Ef eyja er á akbraut má merkið einnig vera þar. Yfir akbraut skal að jafnaði merkt með hvítum samhliða röndum langsum á vegi. Heimilt er þó að merkja gangbraut með tveimur óbrotnum línum eða bóluröðum þvert yfir akbrautina. Merkingu þessa má einnig nota þar sem hjólreiðarstígur eða reiðvegur þverar veg.

Akbraut Gangbraut

Í nýrri bílum er oft að finna LED perur sem eru e.k. dagsljósabúnaður. Má þetta?

Mörg ný ökutæki eru útbúin þannig að þegar bifreiðin er ræst, kvikna stöðuljós að framan (oftar en ekki LED ljós) en engin ljós að aftan. Þó að ökutækið sé svona útbúið er samt sem áður skylda að vera með ökuljós kveikt. Því þurfa eigendur þessara ökutækja að muna eftir því að kveikja ljós bifreiðarinnar áður en lagt er af stað, til að vera vel sýnileg og í samræmi við reglur.

Í sumum nýrri ökutækjum er skynjari sem skynjar hvort að það sé byrjað að nátta, en þar sem aðstæður eru oft erfiðari hér á landi hafa sumir hreinlega brugðið á það ráð að setja límbandi yfir slíka skynjara til að aðalljós bifreiðarinnar séu alltaf kveikt. Slíkt er þó alfarið undir eigandanum komið, en gott ráð fyrir þá sem gleyma stundum að kveikja aðalljós bifreiðarinnar.

Var að velta fyrir mér hvernig hægri forgangur virkaði almennt, þ.e.a.s. er hægri forgangur virkur inni á bílastæðum þar sem engin skilti eru?

Hægri forgangur er grunnregla í umferðarlögum, en í 25. gr. Umferðarlaganna segir:

„Þegar ökumenn stefna svo, að leiðir þeirra skerast á vegamótum, opnum svæðum eða svipuðum stöðum, skal sá þeirra, sem hefur hinn sér á hægri hönd, veita honum forgang.“

Þannig er það í raun að reglan um „rétt til hægri“ gildir, nema þar sem umferðarmerki eða umferðarstjórn lögreglu gilda, en þau gilda ofar þessari grunnreglu.

Get ég tilkynnt óskoðaða bifreið?

Hér áður fyrr fór lögreglan með eftirlit með skoðuðum ökutækjum en það hefur breyst undanfarin ár. Hvað varðar óskoðuð ökutæki þá er kerfið þannig uppbyggt að bifreið sem ekki er færð til skoðunar innan þriggja mánaða frá því að aðalskoðun á að fara fram, fær sjálfkrafa sekt, sem greiða þarf þegar bifreiðin er færð til skoðunar næst. Ef ekki er farið eftir því og bifreiðin samt ekki færð til skoðunar getur lögregla klippt skráningarnúmer af ökutæki eftir að fullir 8 mánuðir hafa liðið frá því að færa átti ökutækið til skoðunar, eða fullir 6 mánuðir hafa liðið frá því að bifreiðin átti að færast til endurskoðunar.

Við höfum sett okkur þá vinnureglu að senda ekki sérstaklega lögreglumenn á vettvang þegar tilkynnt er um óskoðaða bíla, einfaldlega vegna þess að nóg er af verkefnum og þessi verkefni er talið hentugra að vinna skipulega, ekki einn bíl í einu. Þannig tökum við jafnvel fyrir ákveðnar götur/svæði og sektum þannig alla óskoðaða bíla á svæðinu.

Þá getur ótryggð bifreið ekki fengið skoðun og fer lögregla í aðgerðir nokkrum sinnum á ári til að fjarlægja bílnúmer af ótryggðum ökutækjum, enda eru þar miklir hagsmunir í húfi.

Eru vikmörk á hraðamælingum lögreglu?

Já, vikmörk eru á mældum hraða. Ef mældur hraði er 100 km/klst eða minna eru 3 km/klst dregnir frá, en ef mældur hraði er meira en 100 km/klst eru reiknuð út 3% af mælda hraðanum og útreiknaða talan hækkuð upp í næstu heilu tölu fyrir ofan.  Sú tala er síðan dregin frá mælda hraðanum.   Ekki er byrjað að sekta fyrir hraðakstur fyrr en hraðinn er 5 km/klst meiri en leyfður hámarkshraði, sem þýðir að sektir eru gefnar út þegar ökutæki er ekið á 36 km/klst þar sem 30 km/klst hámarkshraði.   Vegna vikmarkanna sem dregin eru frá mælda hraðanum, þá þarf mæling að sýna 39 km/klst til að sektað sé fyrir að aka á 36 km/klst.

Það var svínað á mig í umferðinni, hvað getið þið gert?

Það er aldrei gott að lenda í slíku og það er brot á lögum. Hins vegar er það oftast vegna vanmats á aðstæðum heldur en að það sé vegna ásetnings. En varðandi málið sjálft þá stendur það orð gegn orði og því erfitt að vinna slík mál, auk þess sem við tökum ekki að okkur að skamma fólk vegna ábendinga. Það er líka gott að temja sér ákveðið jafnaðargeð í umferðinni og láta slíkt ekki of mikið á sig fá og ekki kynda undir reiði.

Einu undantekningarnar sem við gerum eru þegar okkur berast margar tilkynningar á sama tíma um athugaverðan akstur ökutækis.

Ég er í björgunarsveit – má ég aka með forgangsakstri í útkall með gult vinnuljós?

Hvað varðar aksturinn þá eru vinnuljós eða svokölluð varúðarljóssker ekki ætluð til slíkra nota. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja segir:

  1. Varúðarljós.

Litur: Skal vera gulur.

Notkun: Ljósið er ætlað til notkunar þegar ökutæki er í þannig aðstöðu að:

  • Vegna vinnu er ekki farið eftir fyrirmælum umferðarlaga.
  • Unnið er við sérstaka flutninga sem geta verið til verulegrar hættu fyrir aðra umferð.
  • Unnið er að vegagerð og vegaviðhaldi, þ.m.t. snjómokstri.
  • Unnið er við björgunarstörf, þ.m.t. drætti ökutækis.

 

Þér er því ekki heimilt að nota varúðarljós í þessum tilgangi enda tengir fólk gult varúðarljós við allt annað en bifreið í hröðum akstri og slíkt getur valdið miklum misskilningi.

Hvað varðar aksturinn sjálfan þá er mögulegt að víkja undan ákvæðum umferðarlaga í ákveðnum tilfellum, sé sannarlega lífshætta. Slíkt gildir þó ekki um almenn útköll og þarf nauðsyn akstursins að vera alveg skýr. Það að aka neyðarakstur er mjög hættulegt og veldur ekki bara þeim sem ekur hættu heldur öllum í umhverfinu.

Í lögunum segir:

„Vélknúið ökutæki, sem í einstakt skipti er notað til aksturs í þjónustu lögreglu, slökkviliðs eða í lífsnauðsyn, svo sem við flutnings sjúks manns eða slasaðs, og er greinilega auðkennt að framan með hvítri veifu, er við þann akstur jafnsett ökutæki sem ætlað er til neyðaraksturs. Stjórnandi ökutækisins skal tilkynna lögreglunni um aksturinn svo fljótt sem auðið er að akstri loknum. Heimildarlaus notkun hvítrar veifu er bönnuð.“

Lögin má finna hérna.

Reglugerðina má finna hérna.

Hvað geri ég ef árekstur verður?

1. Kalla þarf til lögreglu ef:
• Slys verða á fólki
• Ökutæki óökuhæf eða valda hættu.
• Grunur um umferðarlagabrot (ölvunarakstur, hraðakstur, ekið gegnum rauðu ljósi o.s.frv.)
– Hringdu STRAX í 112!

2. Fylla þarf út tjónaform ef einungis er um eignartjón að ræða. Það er hægt að gera sjálf/ur eða fá til þess aðstoð hjá hlutlausum þjónustuaðila td. Akstur og Öryggi: www.arekstur.is – sími: 578 9090
Færa þar ökutæki úr akvegi um leið og mögulegt er – til að þau valdi ekki töfum og hættu. Í flestum tilfellum er hægt að gera það um leið og búið er að ganga úr skugga um að allir séu heilir á húfi.

Í 10. gr. Umferðarlaga er fjallað um um skyldur vegfarenda þegar umferðaróhapp verður: http://www.althingi.is/lagas/145a/1987050.html